RC Akranes

Founded Monday, December 22, 1947
Club 9798 - District 1360 - Charter number

Saga Rkl. Akraness fyrstu áratugina

Upphafsmaður að stofnun Rótarýklúbbs Akraness var Friðrik Hjartar skólastjóri. Hann fluttist til Akraness haustið 1944, en hafði áður verið skólastjóri á Siglufirði og tekið þátt í störfum rótarýklúbbsins þar. Hann saknaði því rótarýstarfsins og tók fljótlega upp viðræður við menn á Akranesi um stofnun rótarýklúbbs.   Fyrir atbeina Friðriks Hjartar sendi Rótarýklúbbur Reykjavíkur tvo áhugamenn til Akraness sumarið 1947, þá dr. med. Helga Tómasson - þá umdæmisstjóra - og Tómas Tómasson ölgerðarmann. Fundur var haldinn á heimili Friðriks Hjartar með nokkrum mönnum af Akranesi um stofnun rótarýklúbbs þar.   Stofnfundur Rótarýklúbbs Akraness var síðan haldinn í Báruhúsinu á Akranesi laugardaginn 29. nóvember 1947. Fundinn sátu eftirgreindir gestir úr Rótarýklúbbi Reykjavíkur: Árni Friðriksson fiskifræðingur, Geir Zöega vegamálastjóri, dr. Helgi Tómasson læknir, Knud Zimsen fyrrv. borgarstjóri, Kristján Siggeirsson kaupmaður, Sigurður Pétursson fyrrv. skipstjóri og Tómas Tómasson ölgerðarmaður.   Friðrik Hjartar stýrði fundinum og skýrði tilefni hans. Umdæmisstjóri dr. Helgi Tómasson flutti ýtarlegt erindi um stefnu og starfsemi Rotary. Jafnframt gerði hann grein fyrir lögum Rotary International og drögum að sérlögum fyrir Rótarýklúbb Akraness. Var stofnun klúbbsins samþykkt að viðhöfðu nafnakalli allra fundarmanna, sem voru 11. Auk þess höfðu 10 aðrir tilkynnt þátttöku sína í klúbbnum. Stofnendur voru því 21. Fyrstu stjórn skipuðu: Friðrik Hjartar forseti, sr. Jón M. Guðjónsson ritari, Jón Sigmundsson gjaldkeri, dr. med. Árni Árnason varaforseti og Ingimundur Steinsson stallari.  

Fullgildingarhátíð klúbbsins var haldin laugardaginn 13. mars 1948 að viðstöddum öllum félögum klúbbsins nema tveimur. Annar var veikur og hinn burtu úr bænum. Gestir mættu frá mörgum öðrum klúbbum, fimm frá Rótarýklúbbi Reykjavíkur, tveir frá Akureyri, einn frá Hafnarfirði, Húsavík og Siglufirði. Dr. Helgi Tómasson umdæmisstjóri ávarpaði klúbbfélaga og lýsti yfir fullgildingu Rótarýklúbbs Akraness, þ. e. inntöku klúbbsins í Rotary International með nr. 6792 og afhenti forseta klúbbsins - Friðrik Hjartar - fullgildingarskírteini og bar fram góðar óskir til klúbbsins, sem varð nr. 8 í 136. umdæmi.   Margir gestir fluttu þarna ræður og kveðjur, ennfremur voru margar gjafir gefnar.

Einn félaganna - Ragnar Jóhannesson skólastjóri - flutti snjallt kvæði, sem síðan hefur verið sungið í lok hvers fundar og er þannig:  

(Lag: Þá hugsjónir fæðast)   Það gleður og þroskar að hugsa og vinna vel, það veikir hvern huga að lykja sig í skel. Vort samstarf eflir tryggð og trausta lund, því trúum við er sátum þennan fund.   Vor rótarý-hugsjón um djúpin byggir brú, og bræðralagsþörfin var aldrei meiri en nú. Hér kveðjumst vér, en hittumst heilir næst. Hér hafa góðir vinir í samhug mæst.  

Verkefni á vegum klúbbsins hafa verið allfjölbreytt, þegar litið er yfir þau frá upphafi. Þeim má skipta í tvennt, einstök verkefni og þau, sem hafa orðið hefðbundin.   Af einstökum verkefnum má nefna: Kaup á 25 blásturshljóðfærum til barnaskólans á Akranesi; styrk til utanfarar ungs manns á Akranesi, sem var blindur, en fór utan til að læra hljóðfærastillingar; dvalarkostnað fatlaðra ungmenna, greiddan nokkur ár, en þau sóttu stutt íþróttanámskeið. sem þá voru haldin að Heiðarskóla í Borgarfirði. Eitt ungmenni fór í hvert skipti. Þá stóð klúbburinn fyrir starfskynningu í barnaskóla Akraness, þeirri fyrstu, sem hér var. Greiddi kr. 20 þús. til kaupa á húsnæði rótarýumdæmisins að Skólavörðustíg 21 í Reykjavík. Farið var í lengri og skemmri ferðalög ásamt eiginkonum, m. a. til Keflavíkur, Vestmannaeyja og upp um Borgarfjörð, og unnið var að hreinsun á fjörum og opnum svæðum í bæjarlandinu í nokkur ár, ýmist klúbburinn einn eða með öðrum klúbbum.  

Af hefðbundnum árlegum verkefnum má nefna: Ferðalög einn dag að sumri með eldri bæjarbúa.  Lengst hefur verið farið til Ólafsvíkur á Snæfellsnesi og austur í Árnessýslu, t. d. að Laugarvatni og Skálholti. Sona- og dætrafundur hefur verið haldinn einu sinni á ári, með dagskrá við hæfi barna. Einn fundur á vori hverju hefur verið notaður til gróðursetningar á trjáplöntum í land bæjarins. Leikhúsferð til Reykjavíkur hefur verið farin flest árin, ásamt eiginkonum rótarýfélaga. Árshátíð er að jafnaði haldin með fjölbreyttum skemmtiatriðum, sem klúbbfélagar annast sjálfir.  

Rótarýklúbbur Akraness vann að stofnun Rótarýklúbbs Borgarness 1952, og hafa klúbbarnir oft skipst á heimsóknum. Þá hefur klúbburinn heimsótt nokkra aðra klúbba, t. d. í Keflavík, Hafnarfirði og átt hlut að sameiginlegri hátíð klúbbanna á Vesturlandi, bæði í Stykkishólmi og í Borgarnesi.   Fyrstu starfsárin gaf klúbburinn út mánaðarbréf, sem send voru öðrum klúbbum, en það lagðist fljótlega niður.   Samskipti við erlenda klúbba eru ekki teljandi, utan klúbburinn hefur fengið nokkur bréf frá erlendum rótarýklúbbum hin síðari ár með beiðni um kaup á ýmsum íslenskum smáhlutum. Þá hafa a. m. k. þrír nemendur af Akranesi verið erlendis sem skiptinemar Rotary, einn í Danmörku og tveir í Bandaríkjunum. Í framhaldi af því hefur verið nokkuð um heimsóknir til vandamanna viðkomandi skiptinema á Akranesi. Stundum hafa þeir komið á fundi í Rótarýklúbbi Akraness.

Umdæmisþing hafa tvisvar verið haldin á vegum klúbbsins, að Bifröst í Borgarfirði í júní 1957, en þá var félagi klúbbsins, dr. med. Árni Árnason héraðslæknir, umdæmisstjóri. og að Laugarvatni í júní 1980 undir forystu annars félaga klúbbsins Baldurs Eiríkssonar fulltrúa, er þá var umdæmisstjóri Daníel Ágústínussson.

Members

Active members 20
- Men 18
- Ladies 2
Paul Harris Fellow 5
Club guests 0
Honorary members 2
Other contacts 7

Address

Akranes
300 Akranes
Iceland

akranes@rotary.is